Fótbolti

Grétar Rafn: Frábær samstaða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson í baráttunni í kvöld.
Grétar Rafn Steinsson í baráttunni í kvöld.
„Það eru erfiðir tímar og þetta bitnar líka á okkur sem og fjölskyldum okkar. Mér fannst því leikmenn sýna frábæra samstöðu inn á vellinum í kvöld," sagði Grétar Rafn Steinsson eftir 1-0 sigur Íslands á Makedóníu í kvöld.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik en gestirnir frá Makedóníu sóttu stíft í þeim síðari og komust oft nálægt því að jafna metin.

„Það þarf alltaf heppni í fótbolta. Bæði lið fengu færi í kvöld og við nýttum okkar. Hefðum við til að mynda nýtt færið sem við fengum í Hollandi þegar staðan var 1-0 hefði sá leikur getað þróast öðruvísi."

Hættulegasta færi Makedóníu fékk Goran Pandev þegar hann náði að leika á Gunnleif Gunnleifsson markvörð og skjóta að auðu marki. Indriði Sigurðsson náði hins vegar að koma sér fyrir boltann.

„Indriði gerir það sem hann á að gera í þessari stöðu. Hann eltir manninn, fer alla leið og lætur svo skjóta í sig. Þetta er hans vinna."

Grétar sagði að sigurinn í kvöld hafi verið sigur liðsheildarinnar og að liðið hafi staðið sig vel í leiknum.

„Við gerðum nákvæmlega það sem við þurftum að gera. Við skoruðum snemma og héldum það svo út. Þeir leikmenn sem komu inn í leikinn stóðu sig mjög vel og þetta var sigur liðsheildarinnar."

„Við náðum að sýna flestar okkar bestu hliðar í fyrri hálfleik en í þeim síðari settu þeir meiri pressu á okkur þannig að við þurftum að sparka boltanum mikið frá okkur. Við vorum ekki með Heiðar (Helguson) frammi í kvöld sem er góður í að halda boltanum og unnum því sjaldan seinni boltann. Þetta varð því erfitt og þó að það hafi ekki litið vel út þurftum við að fara aftar á völlinn. Oftar en ekki er það bara lausnin."

„Við erum þó með líkamlega sterka leikmenn í vörninni og duglega leikmenn á miðjunni. Það er ekki auðvelt að fara í gegnum okkur og við vitum það. Stundum þurfum við að beita þessu ráði og það gekk upp í kvöld."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×