Fótbolti

Ólafur: Það hlaut að detta eitthvað með okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari og Pétur Pétursson, aðstoðarmaður hans.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari og Pétur Pétursson, aðstoðarmaður hans.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari viðurkenndi eftir 1-0 sigur Íslands á Makedóníu í kvöld að heppnin hefði verið á bandi íslenska liðsins.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði sigurmark Íslands í fyrri hálfleik en gestirnir sóttu stíft í þeim síðari en tókst ekki að jafna metin.

„Við höfum verið að vinna að settum markmiðum og eftir ákveðnu skipulagi. Það er það sem við gerðum í kvöld og einhverntímann hljóta hlutirnir að detta með okkur. Menn verða bara að halda haus og sínu skipulagi. Þetta datt svo okkar megin í kvöld," sagði Ólafur eftir leikinn.

„Við vorum ákveðnir í því að fara hátt á þá. Venjulega höfum við lagt leikina upp með því að fá ekki á okkur mark fyrstu fimmtán mínúturnar en nú var takmarkið að skora snemma. Ég held að það hafi staðið 15:00 á klukkunni þegar Veigar skoraði."

Hann hrósaði Veigari Páli fyrir frammistöðu sína í kvöld. „Veigar er búinn að standa sig frábærlega í þeim leikjum sem hann hefur spilað í. Hann hefur líka verið frábær á æfingum og heilt yfir staðið sig gríðarlega vel."

Ísland hélt í kvöld markinu hreinu þó það hafi staðið á stundum tæpt. Ólafur var ánægður með varnarleikinn.

„Það er auðvitað ekki óeðlilegt að fá færi á sig þegar menn liggja svona aftarlega í langan tíma. En það hafði kannski eitthvað að segja að við vorum að spila um helgina en ekki þeir."

„En aðamálið er að við erum sáttir við leikinn og í raun alla þá fjóra sem búnir eru. Ég er mjög sáttur við þá. Mér finnst að leikmenn séu búnir að vera að þróa sinn leik og kominn meiri vani í spilamennsku liðsins."

Hann gerir þó ekki lítið úr mikilvægi leiksins og þýðingu þess að vera með fjögur stig í farteskinu eftir þessa fyrstu fjóra leiki í riðlinum.

„Þetta var úrslitaleikur fyrir okkur um hvort við ætluðum að vera samkeppnishæfir í þessum riðli. Við erum ekki langt frá Skotum og Norðmönnum en ég hef sagt það áður að Makedónía er með næstbesta lið riðilsins. Þessi leikur í kvöld var til að mynda miklu erfiðari en gegn Hollandi um helgina."

„Mér fannst leikmenn Makedóníu ekki bregðast vel við mótlætinu. Þeir þola ekki heldur að spila líkamlegan fótbolta og þeir spiluðu sig ekki vel úr þeirri stöðu í kvöld. En þeir halda boltanum gríðarlega vel innan síns liðs og það er ljóst að Pandev er stórhættulegur leikmaður."

Brynjar Björn Gunnarsson og Eiður Smári Guðjohnsen fóru báðir meiddir af velli í kvöld og sagði Ólafur að þeir hafi báðir fengið högg á fótinn. „Þeir missa örugglega af leikjum sinna liða um helgina en vonandi verða meiðslin ekki alvarlegri en það."

Næsti leikur íslenska liðsins er vináttuleikur gegn Maltverjum ytra þann 19. nóvember.

„Ég mun reyna að kalla inn alla bestu leikmenn okkar í þann leik en það getur líka vel verið að ég taki tillit til einhverra leikmanna. Ég hef líka verið að velta því fyrir mér hvernig það væri best fyrir okkur að nýta þann leik og það getur vel verið að þeir sem hafa fengið minna að spila í leikjunum í haust fái tækifæri í þessum leik."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×