Innlent

Ríkisendurskoðun falið að gera úttekt á lögreglunni á Suðurnesjum

Forsætisnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í dag að fela Ríkisendurskoðun að gera úttekt á rekstri lögreglunnar á Suðurnesjum síðustu 16 mánuði.

Úttektin mun sem sagt ná aftur til þess tíma þegar lögreglan á Suðurnesjum lögregla og tollgæslan á Keflavíkurflugvelli voru sameinuð í eitt embætti auk þess sem öryggisgæsla fór undir sama hatt.

Það var fulltrúi Frjálslynda flokksins, Kristinn H. Gunnarsson, sem lagði fram tillöguna. Hún kemur í kjölfar mikillar óánægju með tillögur þess efnis að aðskilja tollgæsluna frá þessu nýstofnaða embætti. Forvarsmenn lögreglunnar á Suðurnesjum eru afar ósáttir við þær fyrirætlanir sem og tollverðir.

Frjálslyndi flokkurinn vonast til þess að ákvörðun verði ekki tekin um aðskilnað fyrr en Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt sinni. Hún gæti varpað ljósi á nýjar leiðir til þess að leysa þann hnút sem upp er kominn í málinu. Nokkrir þingmenn ríkisstjórnarinnar lýstu efasemdum um aðskilnaðinn á þingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×