Innlent

Óskar óskar eftir rökstuðningi borgarstjóra

Óskar Bergsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.
Óskar Bergsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

„Á þeim rúmu tveimur mánuðum frá því borgarstjórnarmeirihluti Ólafs F Magnússonar tók við völdum í Reykjavíkurborg hefur borgarstjóri nú í þrígang veist að Framsóknarflokknum og fulltrúa hans í borgarstjórn með þeim hætti að eftir hefur verið tekið,"segir í fyrirspurn Óskars Bergssonar borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.

Í upphafi borgarstjórnarfundar óskaði hann eftir rökstuðningi Ólafs F. Magnússonar vegna ummæla hans um Framsóknarflokkinn í sjónvarpsfréttum Rúv í gær. Ólafur kaus að svara ekki.

Í fyrirspurninni segir enn fremur að fyrsta uppákoman hafi verið þegar Ólafur sakaði borgarfulltrúa Framsóknarflokksins um ósannindi í umræðum um niðurskkurð til íþróttamannvirkja um einn milljarð króna.

„Þau ummæli borgarstjóra hafa verið hrakin og niðurskurður um einn milljarð króna til íþróttamannvirkja er staðreynd," segir í fyrirspurninni.

„Önnur uppákoman varð þegar borgarfulltrúi Framsóknarflokksins spurði um aðkomu aðstoðarmanns borgarstjóra að deiliskipulaginu við Laugaveg 4-6. Fyrirspurnin var lögð fram á þeim tíma sem stuðningur almennings við borgarstjórn hafði mælst um 9% sem er met í stuðningsleysi við opinbert fyrirtæki. Svar borgarstjóra við þeirri spurningu var með þeim hætti að hann hefur sjálfur dregið orð sín til baka.

Þriðja uppákoman og ástæða þess að ég kveð mér hljóðs hér í upphafi fundar í Borgarstjórn Reykjavíkur eru ummæli borgarstjóra sem hann lét falla í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins í gær. Þar sagði hann:

Það hafa orðið þau umskipti í borginni að í fyrsta skipti í langan tíma er sá flokkur sem lengst hefur gengið í þjónustu við verktaka og auðmenn, Framsóknarflokkurinn ekki í meirihluta í Reykjavík.

Og ég held að þess muni sjást stað í skipulagsmálunum og uppbyggingunni þar að við erum að gæta hagsmuna borgarbúa en ekki einhverra tiltekinna sérhagsmunahópa eða flokksmanna, eða verktaka eða annara sem (hafa) mikla umsýslu og fé undir höndum.

Að hlusta á borgarstjórann í Reykjavík tala með þessum hætti vakna upp spurningar.

1. Hvað á borgarstjóri við þegar hann segir að Framsóknarflokkurinn hafi gengið lengst í þjónustu sinni við verktaka og auðmenn?

2. Hvaða auðmenn eða verktakar eru það sem Framsóknarflokkurinn gengur svo langt í þjónustu sinni við að mati borgarstjóra og hvernig tengist það niðurlægingu miðborgarinnar?

Ég sem kjörinn fulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík geri þá kröfu að borgarstjóri rökstyðji þær aðdróttanir sem í orðum hans liggja. Það á ekki að líðast í borgarstjórn Reykjavíkur að flokkar jafnt sem borgarfulltrúar þurfi að sitja undir órökstuddum fullyrðingum um meinta spillingu og sviksemi við borgarbúa.

Ég krefst rökstuðnings borgarstjóra strax."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×