Innlent

Orkuveitan ekki skaðabótaskyld

Breki Logason skrifar
Orkuveitan er ekki skaðabótaskyld vegna rafmagnsleysis gærdagsins.
Orkuveitan er ekki skaðabótaskyld vegna rafmagnsleysis gærdagsins. MYND/Róbert

„Það sem gerðist var að virkjunin sló út líka og þar er eitthvað framleiðslutap sem nemur hundruðum þúsunda en ómögulegt er að segja til um kostnað fyrir notendur," segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur.

Rafmagnslaust varð á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins í gær en ekkert rafmagn var í Mosfellsbæ, Grafarvogi, Kjalarnesi og næsveitum í rúmlega fjórar klukkustundir í gær.

Eiríkur segir að ómögulegt sé að segja til um tjón þar sem mismunandi sé hvernig menn verja sig fyrir svona. „Það er hægt að kaupa mjög einfaldan búnað fyrir nokkra þúsund kalla þar sem þú færð korter til þess að vista það sem er inn á tölvunni hjá þér," segir Eiríkur og nefnir að einnig hafi orðið eitthvað viðskiptatap t.d hjá rafmagnslausum pítsuasala.

„Það er reiknað með því að þeir sem geta orðið fyrir tjóni verji sig," segir Eiríkur en Orkuveitan er ekki skaðabótaskyld að sögn Eiríks. „Það er ekki fyrir hendi."

Eiríkur segir að menn hafi byrjað á því að fara yfir hvað fór úrskeiðis og sú vinna sé í fullum gangi. „Ég hef reyndar ekki heyrt í kerfisstjórunum í morgun um hvað nákvæmlega bilaði en þegar það liggur fyrir sendum við frá okkur tilkynningu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×