Innlent

Vill að fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hvatti til þess við setningu Búnaðarþings á Hótel Sögu fyrir stundu að sáttmáli yrði mótaður um að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Hann kvaðst sannfærður um að landbúnaðurinn ætti eftir að verða Íslendingum enn mikilvægari á komandi árum en hingað til. Heimurinn hefði tekið stakkaskiptum. Til merkis um það nefndi forsetinn þætti eins og fólksfjölgun, stækkun borga, bættan efnahag, hlýnun jarðar, hækkun sjávarborðs og breytingar á vatnabúskap jarðar.

Hann sagði að spáð væri allt að 100 prósenta hækkun heimsverðs á matvælum í náinni framtíð. Brýnt væri fyrir hverja þjóð að móta stefnu sem tryggði fæðuöryggi hennar í framtíðinni, tryggja aðgang að nægum og hollum mat á viðráðanlegu verði.

Haraldur Bendiktsson, formaður Bændasamtakanna, fjallaði einnig um mikilvægi þess að þjóðin væri sjálfri sér næg um matvælaframleiðslu, og benti á aukna eftirspurn frá ört vaxandi markaðssvæðum eins og Kína og Indlandi, hátt olíuverð og aukna áherslu á lífrænt eldsneyti. Spurningin væri ekki hvort hægt yrði að selja matvæli í framtíðinni, heldur hvernig sjá mætti öllum þessum fjölda fyrir nægu kjöti og mjólk, grænmeti og ekki síst lífrænu eldsneyti. Þetta væri alvarlegt vandamál sem landbúnaðurinn á heimsvísu stæði frammi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×