Innlent

Sturla treystir umboðsmanni - Guðlaugur segir hann ekki hafinn yfir gagnrýni

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, segist bera fullt traust til umboðsmanns Alþingis í hans mikilvægu störfum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá honum vegna spurninga fjölmiðla um ummæli Árna Mathiesen, setts dómsmálaráðherra, í tengslum við athugun umboðsmanns á skipun Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara. Árni sakaði umboðsmann í svarbréfi sínu um að hafa myndað sér skoðun fyrir fram á málinu.

Í tilkynningu forseta Alþingis minnir hann á að umboðsmaður hafi verið endurkjörinn til starfsins næstu fjögur ár í desember síðastliðnum og hafi hlotið við það kjör einróma stuðning Alþingis. ,,Aðalatriði þessa máls er að mínu mati að umboðsmaður Alþingis fái starfsfrið til að ljúka athugun sinni á því máli, sem til hans hefur verið vísað, og geti gefið álit sitt á því, eins og lög segja til um.

Ég vonast einnig til þess að við frekari meðferð málsins hjá umboðsmanni leysist sá ágreiningur sem nú er uppi og að fullt traust geti ríkt milli þingmanna og ráðherra annars vegar og umboðsmanns Alþingis hins vegar enda er slíkt traust forsenda þess að embætti umboðsmanns Alþingis geti sinnt hlutverki sínu og að álit hans geti verið stjórnsýslunni til halds og trausts," segir Sturla.

Flokksbróðir Árna og Sturlu, Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, sagði hins vegar um málið eftir ríkisstjórnarfund í morgun að umboðsmaður væri ekki hafinn yfir gagnrýni. Það kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×