Innlent

Biðst ekki afsökunar

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segist hissa á þeirri gagnrýni sem hann hefur sætt vegna orða í svari hans til umboðsmanns Alþingis vegna skipunar Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara. Þá segist hann enn fremur hissa á því að málsmetandi aðilar vilji takmarka málfrelsi hans en stjórnarandstæðingar og lögmenn hafa gagnrýnt orð Árna í svarinu til umboðsmanns.

Eins og fram hefur komið sendi umboðsmaður Alþingis Árna sem settum dómsmálaráðherra bréf með ellefu spurningum. Þær vörðuðu skipun Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Tveir umsækjendur, sem taldir voru hæfari en Þorsteinn samkvæmt matsnefnd, kvörtuðu til umboðsmanns.

Í svarbréfi sínu sakaði Árni umboðsmann meðal annars um að hafa myndað sér afstöðu í málinu fyrir fram. Halda mætti því fram að svörin og þar með andmælaréttur ráðherra hefði þá takmarkaða þýðingu þegar leyst yrði úr málinu. Stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt þessi orð og lýst þeim sem valdhroka. Þá hafa ungir jafnaðarmenn farið fram á að Árni biðjist afsökunar á orðunum.

Árni sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að hann myndi ekki draga athugasemdir sínar til baka og að hann byggist ekki við að biðja umboðsmann afsökunar. Þá var hann spurður hvort hann væri með orðunum að skapa sér flóttaleið í málinu en hann neitaði því. Benti hann enn fremur á að enginn hefði séð álit umboðsmanns Alþingis vegna málsins enda hefur umboðsmaður ekki sent frá sér álit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×