Innlent

Engar ákvarðanir verið teknar um breytt hlutverk Íbúðalánasjóðs

MYND/GVA

Deilt var um það á Alþingi í dag hvort sjálfstæðismenn hefðu horn í síðu Íbúðalánasjóðs og hver staða hans yrði til frambúðar.

Það var Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem vakti athygli á nýrri könnun á afstöðu almennings til sjóðsins. Þar hefði komið fram afgerandi stuðningur við sjóðinn og að hann myndi starfa áfram í óbreyttri mynd.

Taldi hann rétt að ræða málið þar sem óvissa væri um stöðu sjóðsins til framtíðar. Innti hann Guðbjart Hannesson, formann félagsmála- og tryggingamálanefndar, eftir skoðun hans á sjóðnum, hvort hann vildi líkt og hægri menn, sem hefðu horn í síðu sjóðsins, breyta hlutverki hans eða leyfa honum að starfa í óbreyttri mynd.

Guðbjartur Hannesson benti á að 80 prósent aðspurðra í könnunum styddu Íbúðalánasjóð en aðeins tíu prósent vildu heildsölusjóð og annað eins að bankar sinntu íbúðalánahlutverki einir. Sagði hann vissulega blikur á lofti vegna athugasemdar eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, en stjórnvöld hefðu engar ákvarðanir tekið um að breyta hlutverki sjóðsins. Þá sagði Guðbjartur erfiðleika vera á húsnæðismarkaði og því þyrfti að fara varlega í málin.

Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, sagði það hafa verið umdeilt þegar bankarnir hefðu hafið innreið sína á íbúðalánamarkað. Margir hefðu haldið að sú innkoma yrði til góða en eftir því sem meiri reynsla hefði komið á það ykist stuðningur við Íbúðalánasjóð.

Bæði Ármann Kr. Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, mótmæltu þeim orðum Birkis Jóns Jónssonar að sjálfstæðismenn hefðu haft horn í síðu Íbúðalánasjóðs.

Benti Ármann á að ákveðið hefði verið að endurskoða hlutverk sjóðsins vegna álits ESA. Í nefnd sem farið hefði yfir málið, og framsóknarmenn hefðu einnig átt aðild að, hefði verið niðurstaðan að ekki skyldi breyta stefnu sjóðsins. Hins vegar hefði verið bent á jafna þyrfti samkeppnisstöðu sjóðsins og bankanna en staða þeirra á markaðnum hefði veikst síðan nefndin hefði skilað niðurstöðum.

Sigurður Kári sagði ekki rétt að þeir sem hefðu varpað fram hugmyndum um annað fyrirkomulag á húsnæðislánamarkaði en það sem gilti nú hefðu horn í síðu Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn hefði starfað vel og það væri eðlilegt að þeir sem byðu upp á bestu kjörin, eins og sjóðurinn gerði nú, væru vinsælir. Það þýddi hins vegar ekki að ekki mætti koma fram með hugmyndir um breytingar eins og að breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka. Hann væri þeirrar skoðunar að Íbúðalánasjóður væri ekkert annað en ríkisbanki og framsóknarmenn hefðu unnið að því með sjálfstæðismönnum að selja ríkisbanka fyrir nokkrum árum.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri - grænna, sagði víst rétt að sjálfstæðismenn hefðu haft horn í síðu Íbúðalánasjóðs. Fagnaði hann breiðri samstöðu hjá Samfylkingunni, Framsóknarflokknum, Frjálslyndum og Vinstri - grænum um stöðu Íbúðalánasjóðs. Í svipaðan streng Guðni Ágústsson sem sagði framsóknarmenn hafa komið í veg fyrir að hlutverki Íbúðalánasjóðs yrði breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×