Innlent

Allir efstu menn á F-lista í Íslandshreyfingunni

Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar.
Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar.

Helstu trúnaðarmenn Íslandshreyfingarinnar funduðu um borgarmálin í gærkvöld. Allir efstu menn á F-listanum eru félagar í Íslandshreyfingunni. „Íslandshreyfingin tók ekki afstöðu til breytinganna á borgarstjórn fyrir þremur mánuðum og hefur heldur ekki gert það núna," segir Ómar Ragnarsson, formaður flokksins. Ómar segist sjálfur vera talsmaður Íslandshreyfingarinnar og því ekki hafa umboð til að taka opinberlega afstöðu til mismunandi sjónarmiða í málinu. Þá bætir hann við að Íslandshreyfingin hafi ekki verið til við síðustu borgarstjórnarkosningar og eigi ekki beina aðild að F-listanum.

Ómar viðurkennir þó að staðan sé sérkennileg. Margt fólk sem hafi gegnt miklu ábyrgðarhlutverki fyrir Íslandshreyfinguna skiptist nú í tvær fylkingar. Til dæmis hafi Ásta Þorleifsdóttir leitt lista þeirra í suðurkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar. Margrét Sverrisdóttir og Guðrún Ásmundsdóttir hafi báðar verið á lista í Reykjavík.

Ómar segir erfitt að átta sig á því hvort eigi sér meiri hljómgrunn innan Íslandshreyfingarinnar, málstaður Ólafs annars vegar eða Margrétar og Guðrúnar hins vegar. Enginn könnun hafi farið fram á stuðningi við þau innan raða Íslandshreyfingarinnar.

„Ég vonast bara til þess að það fólk sem Íslandshreyfingin hefur í borgarstjórn tali fyrir umhverfismálum, hvort sem þeir eru meirihluta eða minnihluta," segir Ómar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×