Innlent

Farþegar í sjokk þegar að flugvél nauðhemlaði á Kastrup

Iceland Express.
Iceland Express.

Flugvél frá Iceland Express þurfti að hætta við flugtak á síðustu stundu í Kaupmannahöfn í gærkvöldi vegna bilunar. Farþegar um borð urðu nokkuð skelkaðir að sögn eins þeirra.

Geir Ólafur Sveinsson segir að flugvélin hefði átt að fara í loftið um hálfníu í gær að dönskum tíma. Henni hafi verið seinkað um klukkustund. Þegar flugvélin hafi svo verið kominn að enda flugbrautarinnar við undirbúning flugtaks hafi hún skyndilega nauðhemlað með þeim afleiðingum að hlutir inni í vélinni köstuðust til. „Þetta var auðvitað svolítið sjokk. Við héldum jafnvel að vélin væri að rekast á einhverja aðra flugvél," sagði Geir í samtali við Vísi.

Geir segir að eftir atvikið hafi farþegar þurft að bíða um borð í flugvélinni í að minnsta kosti fjórar klukkustundir þangað til þeim var hleypt út. Þeim var svo komið fyrir á hóteli um nóttina. Geir segir að tölvukerfið á hótelinu hafi verið bilað þannig að töluverð bið hafi verið eftir því að fá herbergi. „Við fengum lítinn svefn þessa nóttina," segir Geir.

Vinir og vandamenn sem ætluðu að sækja farþega á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi fengu engar upplýsingar um bilunina og á komuskjá textavarpsins stóð að flugið hefði verið fellt niður. Engar upplýsingar var heldur að fá í síma þar sem skrifstofur félagsins voru lokaðar.

Að sögn Geirs fer vélin frá Kastrup flugvelli klukkan 11.15 í dag, að íslenskum tíma, og er áætluð koma til Keflavíkur rúmum þremur tímum síðar.

Ekki náðist í Matthías Pál Imsland, forstjóra Iceland Express, við vinnslu fréttarinnar en starfsmaður Iceland Express staðfesti frásögn Geirs um óhappið.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×