Innlent

„Ónotatilfinning að vera rifinn upp á náttfötunum"

Elliði Vignisson.
Elliði Vignisson.

Í dag eru liðin 35 ár frá upphafi eldgossins á Heimaey, stærstu eyju Vestmannaeyjaklasans. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum segist muna vel eftir þessum atburðum. Gosið stóð í röska fimm mánuði. Þá bjuggu um fimm þúsund manns í eyjum, en margir settust að í landi og hefur íbúafjöldinn aldrei náð fyrri tölu.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segist muna vel eftir þessum degi þrátt fyrir að hafa verið aðeins fjögurra ára gamall þegar gosið hófst. „Þetta er svolítið tætingsleg tilfinning sem fólk finnur. Maður er náttúrulega þakklátur fyrir æðruleysið sem fólk sýndi gagnvart þessum atburðum. Ég man eftir því hvað bjarminn frá gosinu var fallegur, en fólk fékk samt ákveðna ónotatilfinningu að vera rifið upp á náttfötunum um miðja nótt," segir Elliði. Elliði segist mjög þakklátur fyrir það hversu vel hafi tekist til við björgunarstörf, en einnig hversu vel hafi tekist til við að byggja upp Vestmannaeyjar að nýju eftir gosið.

Elliði segir að mikil dagskrá verði í dag til að minnast tímamótanna. Þrátt fyrir það sé þessi dagur notaður til þess að sýna atburðunum alúð og virðingu. Goslokanna sé hinsvegar fagnað með mikilli gleði og húllumhæi á hverju ári.

Gossins verður minnst á vefnum eyjar.net í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×