Innlent

Segir frjálslynda ekki geta stutt Ólaf nema hann starfi í flokknum

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, segir flokkinn ekki geta lýst yfir stuðningi við Ólaf F. Magnússon, verðandi borgarstjóra, eða borið pólitíska ábyrgð á honum nema hann taki til starfa innan flokksins í fullu samráði við frjálslynda í Reykjavík. Þetta kemur fram á vefsíðu Jóns.

Þar óskar hann nýjum borgarstjóa til hamingju með starfið. Jón bendir hins vegar á að bæði Ólafur og varamaður, Margrét Sverrisdóttir, hafi verið kjörin fyrir Frjálslynda flokkinn í borgarstjórn en síðar hafi þau gengið úr flokknum.

„Formaður Frjálslynda flokksins hefur bent á að við erum flokkur sem berst á málefnalegum grundvelli og hann lýsti því yfir að hann væri ánægður með að nýi meirihlutinn hafði ákveðið að taka upp helstu málefnaáherslur Frjálslynda flokksisns frá því fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Frjálslyndi flokkurinn getur hins vegar ekki lýst yfir stuðningi við nýjan borgarstjóra eða borið nokkra ábyrgð á honum pólitískt eða starfslega nema hann taki til starfa innan flokksins í fullu samráði við Frjálslynda í Reykjavík," segir Jón.

Þá hnýtir Jón í Sjálfstæðisflokkinn og segir sjálfstæðismenn hafa sýnt að þeir séu tilbúnir til samstarfs við hvern sem er á nánast hvaða grundvelli sem vera skal, einungis ef þeir eru í valdaaðstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×