Innlent

Segir nýtt meirihlutasamstarf millileik hjá sjálfstæðismönnum

MYND/GVA

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir að samstarf sjálfstæðismanna við Ólaf F. Magnússonar, oddvita F-lista, í borgarstjórn vera millileik hjá sjálfstæðismönnum. Samstarfið við Ólaf sé skyndibrullaup og efnt verði til stærra brúðkaups í Ráðhúsinu við fyrsta tækifæri.

Össur segir á bloggsíðu sinni að það ríki ítalskt ástand í borgarstjórn Reykjavíkur og í reynd enginn starfhæfur meirihluti í borginni. „Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verður í sömu stöðu og Prodi, sem býr við það að hafa erfiða örflokka í stjórnarliðinu, og þarf að vera viðbúinn því að meirihlutinn geti fallið hvenær sem er af engu sérstöku tilefni," segir Össur.

Össur segir enn fremur að Vilhjálmur og aðrir sjálfstæðismenn séu of slyngir til þess að hægt sé að ætla að Ólafur F. Magnússon sé endastöðin í þeirri fléttu sem nú er í gangi. „Fregnir á eyjan.is af margreknum ástarjátningum Davíðs Oddssonar í tveimur ræðum í afmæli hans á dögunum sýna, að reyndir menn eru að hugsa með borgarfulltrúunum. Þeir vita auðvitað, að Ólafi F. Magnússyni er síst treystandi allra manna til langferðalags í pólitík.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka alltaf haft ábyrgðartilfinningu, og hann mun varla leggja það á borgarbúa að sitja lengi uppi með borgarstjórn sem er með forsvarsmann sem enginn treystir, og borgarbúar hlægja að, og getur þar að auki hvenær sem er getur sprungið af minnsta tilefni," segir Össur.

Össur segist því þeirrar skoðunar að um skyndibrullaup með Ólafi F. Magnússyni sé að ræða og hann sé að láta sjálfstæðismenn plata sig einsog kjána í annað sinn til að sprengja samstarf vinstri aflanna. „Svo ég spái því að við fyrsta tækifæri verði Ólafi F. Magnússyni fleygt á öskuhauga sögunnar einsog biluðum grammófón, og þá verður efnt til annars og stærra brúðkaups í Ráðhúsinu," segir Össur.

„Þar með er ég farinn til Kadar," lýkur Össur pistli sínum sem staddur er í Miðausturlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×