Innlent

Þriggja ára fangelsi fyrir að klippa fingur af manni

MYND/E.Ól

Hæstiréttur hefur þyngt dóm yfir Kristjáni Halldóri Jenssyni um eitt ár fyrir bæði húsbrot og aðild að hrottafenginni líkamsárás á Akureyri þar sem fingur var klipptur af fórnarlambi. Hlaut hann þriggja ára dóm.

Kristján var ákærður ásamt tveimur öðrum fyrir tvö húsbrot og þá var hann ákærður fyrir stórfellda líkamsárás ásamt öðrum manni. Í ákærunni var talið að Kristján hefði slegið fórnarlambið með hafnaboltakylfu svo það féll í gólfið og svo sparkað ítrekað í það. Samverkamaður hans var ákærður fyrir að hafa litla fingur af fórnarlambinu en Kristján fyrir aðild að því.

Kristján neitaði að hafa sparkað í fórnarlambið og að hafa tekið þátt í að klippa fingur af því en játaði brot sín að öðru leyti. Með framburði vitna þótti hins vegar sannað að hann hefði sparkað í manninn og þá var fallist á aðild hans að því að klippa fingurinn af manninum.

Með brotum sínum rauf Kristján skilorð 45 daga fangelsisrefsingar samkvæmt dómi frá 2005 og var hann tekinn upp og dæmt í einu lagi. Tveir eldri dómar vegna líkamsárása höfðu einnig ítrekunaráhrif.

Þá var litið til þess við ákvörðun refsingar að Kristján og samverkamaður hans stóðu saman að líkamsárásinni, hversu hrottafengin hún var og þeirra afleiðinga sem hlutust af henni auk þess sem skipulagning og aðdragandi hennar þóttu bera vott um einbeittan ásetning.

Þótti þriggja ára dómur hæfileg refsing en hann hafði í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdur í tveggja ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×