Innlent

Troðfullir pallar í Ráðhúsinu og púað á nýjan meirihluta

Mikill fjöldi fólks er nú kominn saman niðri í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem borgarstjórnarfundur er að hefjast og meirihlutaskipti verða í borginni. Komast færri að en vilja á pöllum borgarstjórnarsalarins.

Þá stendur fjöldi fólks fyrir utan Ráðhúsið á vegum ungliðahreyfinga fráfarandi meirihluta og hrópar slagorð gegn nýjum meirihluta Sjálfstæðisflokksins og F-lista sem tekur við völdum í dag.

Púað var á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson þegar hann mætti í Ráðhúsið skömmu fyrir hádegi. Hann sagði í samtali við fréttamann Stöðvar 2 í hádeginu að honum liði ágætlega í dag en hann væri ekki ánægður með þann óróa sem ríkti í borginni. Sagðist hann skilja vel fólk sem ekki væri sátt við uppákomur síðustu mánaða en, „númer eitt, tvö og þrjú er að koma festu og ró á stjórn borgarinnar," sagði Vilhjálmur og bætti við að nýr meirihluti yrði að láta verkin tala.

Þegar fundurinn var að hefjast hrópuðu gestir á pöllum: „Hættið við" og Okkar Reykjavík, okkar Dagur í Reykjavík,".

Þegar Ólafur F. Magnússon hugðist taka til máls var púað á hann og hann hvattur til að hætta við. Greip Ólafur til þess ráðs að gera hlé á fundinum.

Eftir hávær mótmæli af áhorfendapöllum stróð Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri upp bað fólk að sýna stillingu. „Ég skil vel að margir séu komnir á pallana og mér þykir mjög vænt um það. Það er ekki ykkur að þessi staða er komin upp heldur nýjum meirihluta. Ég bið ykkur að sýna stillingu því ef það er ekki gert verður ykkur vísað úr salnum. Þá verða færri vitni að því að þeir eru ábyrgir gjörða sinna. Sýnið stillingu svo pólitíkin verði ekki aftur ein í afluktu herbergi," sagði Dagur.

  Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.