Innlent

Mættu ekki til að taka á móti undirskriftum

Hvorki Ólafur F. Magnússon né Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lét sjá sig þegar aðstandendur undirskriftasöfnunar gegn myndun nýs meirihluta hugðust afhenda þeim undirskriftir nærri sex þúsund Reykvíkinga.

Lísa Kristjánsdóttir, einn aðstandenda undirskriftarsöfnunarinnar, segist hafa boðað bæði Ólaf og Vilhjálm í Ráðhús Reykjavíkur en 5885 undirskriftir höfðu safnast. Fáir voru komnir saman í Tjarnarsal Ráðhússins þegar Lísa las upp yfirlýsingu þar sem hún sagði að með nýjum meirihluta væri valtað yfir lýðræðið og borgarbúa. Vísaði hún til skoðanakönnunar Fréttablaðsins máli sínu til stuðnings sem sýnir að fjórðungur borgarbúa styður nýjan meirihluta. Þá sagði hún að nýr meirihluti ætti að „skammast sín".

Undirskriftasöfnunin hófst á þriðjudag og með henni var verið að mótmæla vinnubrögðum við myndun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Magnússonar. Titill síðunnar var „Nú er okkur nóg boðið" og þar var því jafnframt mótmælt að í borginni verði borgarstjóri með rösklega sex þúsund og fimm hundruð atkvæði á bak við sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×