Innlent

Þrír ákærðir fyrir að ráðast á fíkniefnalögreglumenn

Veitingastaðurinn Monte Carlo á Laugavegi.
Veitingastaðurinn Monte Carlo á Laugavegi.

Algis Rucinskas, Sarunas Urniezius og Vitalij Gagin hafa verið ákærðir fyrir að ráðast með ofbeldi á lögreglumenn við fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem voru við skyldustörf fyrir utan veitingastaðinn Monte Carlo á Laugavegi þann 11. janúar síðastliðinn.

Þeir eru allir ákærðir fyrir að hafa í sameiningu ráðist á einn lögreglumanninn, slegið hann ítrekað, meðal annars í höfuðið, og sparkað í höfuð hans að minnsta kosti tvisvar eftir að þeir felldu hann í götuna. Við þetta hlaut lögreglumaðurinn heilahristing og sár víðsvegar á líkamanum.

Algis Rucinskas er ákærður fyrir að slá annan lögreglumanninn í höfuðið með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að hann hlaut stóra kúlu ofarlega á enni vinstra megin. Einnig að slá þann þriðja í andlitið með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að hann hlaut meiðsl í andliti og tognun á hálshrygg.

Mennirnir eru ákærðir fyrir brot gegn valdstjórninni og gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×