Innlent

Fleiri forgangsakreinar fyrir strætó og hjólagötur við stofnbrautir

MYND/Pjetur

Borgarstjórnaflokkur Samfylkingarinnar vill ölfugri almenningssamgöngur með fleiri forgangsakreinum fyrir strætó á helstu stofnbrautum borgarinnar og sérstaka hjólagötur á sömu götum. Þá vill flokkurinn að fremur verði ráðist í Öskjuhlíðargöng en mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þetta kemur fram í ályktun frá borgarstjórnarflokknum í tilefni að því að samgönguvika borgarinnar hefst í dag.

Í ályktun borgarstjórnarflokksins lýsir hann áhyggjum af þeirri óvissu sem ríki um stefnu Reykjavíkurborgar í samgöngumálum og segir hann sömuleiðis áhyggjuefni að þjónusta strætó hafi verið skorin stórlega niður síðastliðið ár. Almenningssamgöngur hafi aldrei verið fjær því að vera fullgildur samgöngumáti fyrir stóran hluta Reykvíkinga.

Þá segir Samfylkingarfólk í borginni ánægjulegt að meirihluti borgarstjórnar hafi tekið upp stefnu fyrri meirihluta um að efla aðra ferðamáta en einkabílinn. Þvert á þetta sé þó enn rætt um þriggja hæða mislæg gatnamót á Miklubraut-Kringlumýrarbraut sem fyrir liggi að muni sáralitlu skila nema fjárútlátum, aukinni umferð og enn frekari umferðarstíflum á öllum næstu gatnamótum. Vill Samfylking fremur að ráðist verði í gerð Öskjuhlíðarganga til þess að dreifa umferðinni.

Ályktun Samfylkingarinnar má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×