Innlent

Fiskvinnslufólk fær 217 milljónir í aukabætur

Stjórnarfrumvarp hefur verið lagt fram á alþingi sem gerir ráð fyrir aukagreiðslum til þess fiskvinnslufólks sem verður atvinnulaust vegna kvótaskerðingarinnar. Er gert ráð fyrir að eyða 77 milljónum kr. á þessu ári og 140 milljónum kr. á næsta ári úr ríkissjóði sökum þessa eða samtals 217 milljónum kr.

„Frumvarpið er lagt fram sem liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að styrkja atvinnulíf í þeim sjávarbyggðum sem eiga í erfiðleikum vegna ákvörðunar stjórnvalda um samdrátt þorskveiðiheimilda," segir m.a í athugasemdum með frumvarpinu. „Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að koma til móts við fyrirtæki sem starfrækja fiskvinnslu vegna tímabundinnar vinnustöðvunar sem rekja má til framangreinds samdráttar með því að fjölga greiðsludögum sem heimilt er að bæta fyrirtækjum í einni vinnslustöðvun úr 20 dögum eins og verið hefur í 30.

Að því er varðar heildarfjölda greiðsludaga á ári hverju er jafnframt lagt til að heimilt verði að greiða fyrir allt að 60 vinnudaga á ári hverju til sama fyrirtækis í stað 45 daga áður. Gert er ráð fyrir að breytingar þær sem lagðar eru til á fjölda greiðsludaga með frumvarpi þessu verði tímabundnar og því er lagt til að ákvæði til bráðabirgða falli úr gildi að liðnum tveimur árum frá gildistöku þeirra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×