Innlent

Ósanngjarnt að staðir í nágrenninu lúti ekki sömu reglum

Eigendur Q-bars í Ingólfsstræti eru ósáttir við ákvörðun borgaryfirvalda að stytta afgreiðslutíma staðarins. Samkynhneigðir sækja staðinn en honum á að loka klukkan þrjú í stað hálfsex. Eigendur skilja ekki af hverju aðrir staðir í Ingólfsstræti lúti ekki sömu reglum.

Borgarráð lagði nýlega til að afgreiðslutími þriggja skemmtistaða í miðbænum, Q-bars, Mónakó og Monte Carlo yrði styttur. Þeim á að loka klukkan þrjú í stað hálfsex. Borist hafa kvartanir vegna hávaða á Q-bar á Ingólfsstræti að undanförnu og borgarráð telur það gild rök fyrir styttum afgreiðslutíma.

Ragnar Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Q-bars, er ósáttur við þessa ákvörðun og segir ósanngjarnt að skemmtistaðirnir Prikið og Sólon sem séu í nokkurra metra fjarlægð lúti ekki sömu reglum.

Samkvæmt mælingum umhverfissviðs Reykjavíkurborgar var Q-bar 4-8 desibilum undir hávaðamörkum. Hávaðinn var einnig mældur fyrir utan staðinn og þar þótti hann of mikill.

Ragnar segir styttan afgreiðslutíma breyta miklu fyrir rekstur Q-bars þar sem mesta aðsóknin sé milli hálfþrjú og fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×