Innlent

Gagnrýna forseta og aðra þingflokka fyrir að rjúfa samstöðu

MYND/Egill Bjarnason

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs gangrýnir forseta Alþingis og formenn allra þingflokka fyrir að rjúfa hefð um samstöðu um breytingar á þingsköpum og leggja fram frumvarp án samkomulags við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn.

Hið nýja frumvarp verður á dagskrá þingfundar síðar í dag en samkvæmt því á að breyta ræðutíma á þinginu. Í stað þess að þingmenn fái eins langan tíma og þeir vilja í annarri umræðu um frumvörp verður tíminn takmarkaður við fimmtán mínútur en þingmenn mega í staðinn taka til máls eins oft og þeir vilja.

Þingflokkur VG hefur boðað til blaðamannafundar vegna þessa en í yfirlýsingu harmar flokkurinn þessa málsmeðferð sem auðveldlega hefði verið hægt að vinna í sátt. Flokkurinn vilji gæta réttar og vígstöðu stjórnarandstöðunnar í samskiptum við meirihlutann og framkvæmdarvaldið.

Segir VG það alrangt að flokkurinn hafi ekki viljað breytingar í þessum efnum. Forsenda þeirra breytinga verði hins vegar að vera sú að vinnubrögðin batni, vinnuaðstæður og allt skipulag verði betra og að staða stjórnarandstöðu og þingsins í heild gagnvart framkvæmdarvaldinu styrkist en veikist ekki.

„Það er ekki til umræðu af hálfu VG að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðunnar fyrir sporslur sem ekki hafa í sjálfu sér neina grundvallarþýðingu fyrir stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu eða minnihluta á Alþingi. Það er hins vegar það sem er að gerast í þessu máli, meirihlutanum og framkvæmdavaldinu í hag," segir í tilkynningu frá þingflokki Vinstri - grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×