Innlent

Sýknaðir af ákæru um barsmíðar á töðugjöldum

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í dag þrjá menn af því að hafa ráðist á þann fjórða fyrir utan skemmtistað á Hellu. Atvikið átti sér stað í 14. ágúst 2005 en þann dag voru töðugjöld á Hellu.

Eftir því sem fram kemur í dómnum kom til hópslagsmála fyrir utan skemmtistaðinn og var fórnarlambinu í málinu hrint í jörðina og sparkað í það. Þá var maðurinn sleginn ítrekað í andlit, hnakka og kvið með þeim afleiðingum að hann nef- og rifbeinsbrotnaði og hlaut glóðarauga.

Þrír menn voru kærðir fyrir ofangreinda árás. Allir neituðu þeir sök. Sá fyrsti neitaði að hafa slegið fórnarlambið en lögreglumaður á vakt sagðist hafa séð manninn slá til fórnarlambsins. Hins vegar sá lögreglumaðurinn ekki hvort höggið lenti á fórnarlambinu og þar sem engin önnur vitni voru um höggið var hann sýknaður.

Annar maðurinn neitaði jafnframt að hafa veitt fórnarlambinu þá áverka sem greint er frá í ákæru. Hann viðurkenndi þó að hafa slegið fórnarlambið eitt högg í síðuna en hefði svo verið dreginn í burtu af bróður sínum. Í ljósi þess að engin vitni voru að árás mannsins taldi dómurinn ekki sannað að maðurinn hefði veitt umrædda áverka.

Þriðji maðurinn sem ákværður viðurkenndi að hafa slegið fórnarlambið í gagnauga og síðu en höggin hefðu verið laus. Neitaði hann því að hafa veitt manninum áverka. Hann hefði eftir höggin tvö séð að fórnarlambið var hálfrotað og blóðugt í andliti og þá gengið burt. Þá neitaði maðurinn að hafa sparkað í fórnarlambið en það sagði sjálft að það hefði nefbrotnað við spark. Taldi dómurin því svo mikinn vafa á að maðurinn hefði veitt fórnarlambinu umrædda áverka að ekki væri hægt að sakfella hann fyrir þá.

Rúmlega 800 þúsund króna skaðabótakröfu fórnarlambsins var vísað frá dómi á grundvelli sýknudómanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×