Innlent

Færri börn fá nafn við skírn í þjóðkirkju

Börnum sem fengu nafn við skírn í þjóðkirkju fækkaði um þrettán prósentustig á tímabilinu 1996-2005. Þetta kemur fram í vefriti dómsmálaráðuneytisins.

Þar segir að árið 1996 hafi 89 prósent barna fengið nafn við skírn í þjóðkirkju en 76 prósent fengu það árið 2005. Á sama tímabili jókst hlutfall þeirra sem fengu nafn með tilkynningu til Þjóðskrár um tæp 10 prósentustig, úr nærri sjö prósentum í tæp 17 prósent.

Hér á landi eru þrjár leiðir til að gefa barni nafn: við skírn í þjóðkirkju, skírn eða nafngjöf hjá skráðu trúfélagi eða með tilkynningu til Þjóðskrár. Af tæplega 42.000 börnum sem fengu nafn á ofangreindu tíu ára tímabili fengu að meðaltali rúm 83 prósent nafn við skírn í þjóðkirkju, ellefu prósent með því að send var inn tilkynning þar um til Þjóðskrár og 5,7 prósent með skírn eða nafngjöf í skráðu trúfélagi.

Fram kemur í vefritinu að forsjármönnum barns sé skylt að gefa því nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess. Langstærstur hluti barnanna, nærri 97 prósent, hafði fengið skráð nafn í þjóðskrá innan sex mánaða frá fæðingu, þar af fékk um þriðjungur barnanna nafn á öðrum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×