Innlent

Fagna samstarfi Björgólfs og RÚV

Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri RÚV, Björgólfur Guðmundsson athafnamaður og Páll Magnússon útvarpsstjóri við undirritun samningsins á föstudaginn var.
Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri RÚV, Björgólfur Guðmundsson athafnamaður og Páll Magnússon útvarpsstjóri við undirritun samningsins á föstudaginn var. MYND/GVA

Félag leikskálda og handritshöfunda fagnar eindregið nýgerðum samningi Ríkisútvarpsins og Björgólfs Guðmundasonar um að tvöfalda framlaga til kaupa á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu.

Þar segir enn fremur að samningurinn lýsi sjaldséðum og einlægum áhuga einstaklings á því hversu gríðarlega mikilvægt innlent leikið efni sé. Félagið hafi barist fyrir þessu málefni í áraraðir. Þá skorar félagið á forráðamenn Sjónvarpsins að nýta sér þetta tækifæri til að halda áfram á markaðri braut og tryggja þjóðinni vandað og eftirsóknarvert leikið sjónvarpsefni.

Félag leikskálda og handritshöfunda lýsir í annarri ályktun fullum stuðningi við kjarabaráttu og verkfallsaðgerðir bandarískra handritshöfunda. „Barátta þessara félaga okkar er hins sama og okkar, það er baráttan fyrir réttlátri umbun fyrir handritsskrif, í hvaða mynd og hvaða miðli sem afraksturinn er nýttur," segir í ályktuninni.

Bendir félagið á að hér á landi sé enn ekki til neinn heildarsamningur við framleiðendur kvikmynda og sjónvarpsefnis þrátt fyrir margra ára viðleitni félagsins til þess að koma honum á. Félagið skorar á handritshöfunda að hafa samband við félagið áður en þeir undirrita nokkra samninga á þessu sviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×