Innlent

Toys 'R' Us á Íslandi tekur Bindeez úr sölu

Andri Ólafsson skrifar

Toys 'R' Us leikfangaverslunin, sem opnaði í Kópavogi fyrir skemmstu, hefur ákveðið að taka svokölluð Bindeez leikföng úr sölu. Þetta er gert eftir ábendingar um að hættulegt sé fyrir börn að stinga perlum sem fylgja leikfanginu upp í sig.

Að sögn Guðrúnar Kristínar Kolbeinsdóttur, verslunarstjóra Toys 'R' Us, hefur töluvert verið selt af umrædu leikfangi síðan verslunin opnaði. Í dag fékk hún þau skilaboð frá skrifstofum Toys 'R' Us í Danmörku að leikföngin skildu fjarlægjast úr hillum verslunarinnar.

Perlur sem fylgja Bindeez leikfanginu þenjast út þegar þær komast í snertingu við vatn. Að sögn Guðrúnar Kristínar hefur borið á því að börn hafi sett perlurnar upp í sig og selt upp.

Í dag bárust fréttir af því að Bindeez leikföngin hefðu verið gerð ólögleg í Ástralíu vegna litarefna í umræddum perlum. Guðrún Kristín segir að annar framleiðandi sé á þeim leikföngum sem seld séu til Ástralíu en Evrópu og að ekki þurfa að óttast litarefnin sem sé að finna í Bindeez leikföngum sem seld hafi verið hér á landi.

Áðstæðan fyrir því að Bindeez leikföngin hér á landi séu tekin úr sölu sé ekki eiturefni heldur hættan á að börn verði fyrir óþægindum af því að gleypa perlur sem er að finna í leikfanginu.

 

Guðrún Kristín biður þá foreldra sem keypt hafi Bindeez leikföng í Toys ´R´Us undanfarna daga um að vera á varðbergi fyrir þessari hættu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×