Innlent

Snjóflóðum komið af stað með sprengingum

Snjóflóðum verður komið af stað með sprengingum á Vestfjörðum í vetur. Kanna á hvort hægt sé að nota þessa aðferð við snjóflóðaeftirlit.

Farið var af stað með verkefnið fyrir um ári og voru þrjár tilraunir gerðar síðasta vetur. Það er Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands sem stendur fyrir verkefninu og nýtur til þess aðstoðar sprengjusérfræðings. Sprengingar eru víða notaðar erlendis við snjóflóðaeftirlit en þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert hér á landi. Harpa Grímsdóttir, forstöðumaður Snjóflóðasetursins, segir að allar tilraunir séu gerðar langt frá mannabyggð og því ætti engum að stafa hætta af.

Sprengingar hafa meðal annars verið notaðar erlendis til að koma af stað snjóflóðum við vegi og á skíðasvæðum. Snjóflóðum er þá komið af stað í litlum skömmtum en þannig er komið í veg fyrir stærri flóð. Harpa segir einnig hugsanlegt að nota sprengingar til að sjá hvort rýma þurfi ákveðin svæði. Það yrði þá gert þannig að sprengt yrði á svæði nærri rýmingarsvæðinu, þar sem engin byggð er en aðstæður eru sambærilegar og á rýmingarsvæðinu. Þannig er hægt að sá hversu stöðugt svæðið er.

Vonast er til að hægt verði að gera tvær til fjórar tilraunir í vetur. Kanna á dýpri farvegi og þannig reyna að koma af stað stærri flóðum en gert var í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×