Innlent

Evrulaun geta leitt til tvöfalds hagkerfis

Ólafur Ísleifsson, lektor í Háskólanum í Reykjavík, segir að ekki séu allir sem sitji við sama borð þegar kemur að launum í evrum og það sé miður.
Ólafur Ísleifsson, lektor í Háskólanum í Reykjavík, segir að ekki séu allir sem sitji við sama borð þegar kemur að launum í evrum og það sé miður.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins útilokar ekki að evrulaun verði rædd í komandi kjarasamningum. Stefnir í tvöfalt hagkerfi, segir lektor við Háskólann í Reykjavík.

Til greina kemur að ræða launagreiðslur í evrum í komandi kjarasamningum, segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, sagði í blaðinu í gær að evrulaun yrðu ef til vill rædd í viðræðunum. „Þetta hefur ekki verið rætt formlega en við höfum hugsað um þetta. Málið snýst aðallega um áhættuna; það getur verið betri áhættudreifing fyrir starfsmenn og fyrirtæki ef laun eru greidd í evrum eða öðrum gjaldmiðli. Það eru auðvitað mörg fyrirtæki með tekjur sínar að mestu í erlendri mynt," segir Vilhjálmur Egilsson.

Ólafur Ísleifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, segir þessi ummæli til marks um að evran komi inn í íslenskt hagkerfi smátt og smátt og án pólitískrar ákvörðunar. Evran taki sig upp sjálf.

„Evran kæmi þá hingað fyrir tilverknað fjölda aðila þar sem hver leitast við að taka ákvarðanir út frá eigin hagsmunum. Og þarna eru komnir forystumenn

launafólks og atvinnurekenda sem telja að það geti þjónað hagsmunum beggja að semja um kaup og kjör í erlendri mynt."

Ólafur segir að nú stefni í tvöfalt hagkerfi: „Þeir sem eru í krónunni og okurvöxtunum og svo hinir." Ákjósanlegra væri að stjórnvöld tækju um þetta

yfirvegaða ákvörðun með formlegum hætti, því annars sé gengisáhættan skilin eftir hjá þeim sem ekki komast hjá henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×