Innlent

Gæsluvarðahaldsfangar verða vistaðir á lögreglustöðvum

Fangaklefar við Hverfisgötu.
Fangaklefar við Hverfisgötu.

Allir gæsluvarðhaldsklefar landsins eru uppteknir í kjölfar þess að sjö litháar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í gær. Síðar í dag kemur í ljós hvort sjö félagar þeirra til viðbótar verði einnig settir í gæsluvarðhald.

Erlendur Baldursson hjá Fangelsismálastofnun segir ástandið sýna fram á þá brýnu þörf sem sé á því að bæta aðstöðu til gæsluvarðhaldsvistunar.

Erlendur segir í samtali við Vísi að komi sú staða upp að ekki verði hægt að koma fleirum inn þá hafi stofnunin heimild til þess að nýta sér fangaklefa á lögreglustöðvum landsins. Hann segir alveg ljós að verði litháarnir sjö sem nú eru í haldi úrskurðaðir í gæsluvarðhald þá fari þeir ekki á Litla-Hraun eða í Hegningarhúsið, þar sé allt fullt. „En það liggur í augum uppi að það þarf meiri aðstöðu fyrir gæsluvarðhald og ég vona að úr rætist fyrr en síðar," segir Erlendur. „Svipað ástand hefur áður skapast en ég man nú ekki í svipinn eftir að það hafi verið svona slæmt," segir hann.

Gæsluvarðhaldsklefar landsins eru tólf í dag, tíu á Litla-Hrauni og tveir í Hegningarhúsinu. Í fyrirhuguðu fangelsi á Hólmsheiði er gert ráð fyrir fjórtán klefum fyrir gæsluvarðhald auk þess sem fangelsið verður hannað með það í huga að létt verk er að fjölga slíkum klefum ef þörfin fyrir slíkt skapast.

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að plássleysi hafi engin áhrif á það hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir þeim sjö Litháum sem nú eru í haldi. „Það er ekki okkar mál," segir Ómar. „Ef við sjáum ástæðu til að krefjast gæsluvarðhalds þá gerum við það, við höfum aldrei sett plássleysi fyrir okkur. Það er annara að finna út úr þeim vanda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×