Innlent

Stuðst við vísbendingu frá miðli í Þýskalandi við leitina að Þjóðverjunum tveimur

Vísbending frá miðli í Þýskalandi hefur verið höfð til hliðsjónar við leitina að Þjóðverjunum tveimur á Svínafellsjökli. Vísbendingar hafa einnig borist frá íslenskum miðlum. Þessar vísbendingar eru teknar alvarlega en þær hafa hingað til ekki leitt til árangurs.



Leit var haldið áfram í dag að Þjóðverjunum tveimur sem saknað hefur verið síðan 17. ágúst en þá áttu þeir bókað flug til Þýskalands.

Björgunarsveitamenn fundu sólgleraugu og mannbrodda í morgun sem hugsanlegt var að tilheyrðu Þjóðverjunum tveimur en síðar í dag kom í ljós að svo var ekki. Í dag hafa fundist fótspor á nokkrum stöðum á leitarsvæðinu á og við Svínafellsjökul, en það hefur ekki leitt til neins að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Ólöf segir að á annað hundrað manns hafi tekið taki þátt í leitinni í dag. Leitað verði fram í myrkur og ákvörðun um framhaldið tekin í kvöld.

Vísbendingar hafa verið gefnar af miðli í Þýskalandi og af miðlum á Íslandi og Ólöf segir að þegar svona sé statt sé allt skoðað alvarlega og í samhengi við aðrar vísbendingar sem hafi borist.

Ólöf sagðist ekki vilja gefa upp efni einstakra vísbendinga en ljóst sé að mennirnir tveir séu ekki fundnir.

Þýski miðillinn hefur áður unnið með lögreglu í Þýskalandi við úrlausn mála þar í landi samkvæmt heimildum Stöðvar 2.

Í dag var leitað með þyrlu Landhelgisgæslunnar og nýttist hún einkar vel við að koma leitarfólki á erfiða staði á jöklinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×