Innlent

Enn leitað að Þjóðverjunum

Leit að þýsku ferðamönnunum hefur enn ekki borið árangur, en hún heldur áfram í dag. Að sögn Ólafar Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa hjá Landsbjörgu,  verður leitað í grennd við svæðið þar sem tjöld mannanna fundust, á Öræfajökli og Svínafellsjökli.

Undir lok leitar í gærkvöldi fundust spor í um 1700m hæð við Hrútfallstinda á mjög erfiðu svæði. Strax í morgun var flogið með sérþjálfaða klifurmenn þangað og munu þeir leita það svæði eins og hægt er í dag.

Um 110 björgunarmenn í 23 hópum eru við störf á svæðinu og vinna sem stendur að 22 verkefnum. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, er einnig við leit á svæðinu. Fyrstu hópar lögðu af stað til leitar kl.06:00 í morgun og fara þeir þekktar gönguleiðir á Hrútfjallstinda og á Hvannadalshnjúk.

TF-GNÁ hefur í morgun ferjað fjölda hópa til leitar á svæðinu og telja stjórnendur leitarinnar að þyrlan hafi þegar sparað leitarmönnum 300 klst. í göngu með því að hægt var að fljúga með þá upp í fjallið. Eins og undanfarna daga munu hóparnir verða við störf fram í myrkur.

Karlmaður úr björgunarsveitinni Súlum frá Akureyri slasaðist við leitarstörf í Svínafellsjökli um kvöldmatarleytið í gær. Talið er að hann hafi farið úr axlarlið. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti manninn á jökulinn og flutti í Freysnes. Þaðan var hann fluttur til læknis á Höfn í Hornafirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×