Innlent

Meiri líkur á mjúkri lendingu eftir álverskosningar

MYND/Anton Brink

Greiningardeild Glitnis segir að meiri líkur séu á tiltölulega mjúkri lendingu hagkerfisins, að vextir taki að lækka fyrir árslok og verðbólga verði í námunda við markmið Seðlabanka á komandi misserum eftir að ljóst varð að Hafnfirðingar hefðu hafnað stækkun álversins í Straumsvík.

Í Morgunkorni Glitnis segir enn fremur að mikilvægt sé að hagkerfið fái ráðrúm til að jafna sig eftir mikið þensluskeið og hætt hefði verið við því að stækkun í Straumsvík, sem hefði að líkum hafist af fullum krafti í kring um næstu áramót, hefði frestað aðlögun hagkerfisins að jafnvægi og aukið hættu á harðari skelli seinna meir.

Greiningardeildin telur enn fremur að niðurstaðan í Hafnarfirði auki líkur á álveri í Helguvík á næstu misserum en þær framkvæmdir hafi mun minni áhrif á efnahagsþróun næsta kastið en Straumsvíkurstækkun hefði haft. Er bent á í því sambandi að lengra sé í þær framkvæmdir auk þess sem álverið í Helguvík sé minna en áætluð stækkun í Straumsvík.

Bendir Glitnir enn fremur á að markaðurinn hafi brugðist á tiltölulega mildan hátt við tíðindum helgarinnar. Hyggst bankinn gefa út í vikunni nýjar spár fyrir stýrivexti og gengi krónu sem meðal annars byggjast á þeim upplýsingum sem felast í Peningamálum Seðlabanka og niðurstöðu kosninganna í Hafnarfirði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×