Innlent

Vara við frjálsri sölu nikótínlyfja

MYND/365

Apótekarar eru mótfallnir því að sala nikótínlyfja verði gefin frjáls og telja slíkt afar varhugavert. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi á Alþingi á að leyfa öllum þeim sem nú selja tóbak einnig að selja nikótínlyf.

„Okkur finnst einkennilegt að hægt sé að taka eitt lyf út með þessum hætti," sagði Guðni B. Guðnason, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu, í samtali við Vísi. „Það vantar alla útfærslu í þetta. Við teljum þetta vera mjög varahugavert."

Samkvæmt frumvarpi um breytingu á lyfjalögum verður öllum þeim sem hafa leyfi til sölu tóbaks í smásölu einnig heimilt að selja nikótínlyf sem ekki eru lyfseðilsskyld. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að markmiðið sé að fjölga sölustöðum nikótínlyfja í því skyni að hjálpa reykingamönnum að hætta að reykja. Flutningsmaður frumvarpsins er Katrín Júlíusdóttir en ásamt henni standa sex aðrir þingmenn að frumvarpinu.

Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju, tekur undir orð Guðna. Hann bendir á að verði nikótinlyf seld í söluturnum er hætt við að fólk fari að líta lyfin sem hverja aðra söluvöru. „Nikótín er fyrst og fremst eitur sem þarf að umgangast varlega. Ef byrjað verður að selja þetta í söluturnum er hætt við að notkunin muni aukast."

Sigurbjörn bendir á að eftir að Danir hafi heimilað frjálsa verslun með nikótínlyf hafi neysla þeirra stóraukist. „Fólk er byrjað að líta á nikótíntyggjó sem venjulegt tyggjó. Það er varhugaverð þróun. Menn þurfa að stíga varlega til jarðar í þessu máli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×