Innlent

Öryggi á norðurslóðum nýtt forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu

MYND/VGA

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, lagði áherslu á aukna þátttöku Íslands í þróunarverkefnum og friðargæslu í munnlegri skýrslu sinni um utanríkismál á Alþingi í morgun. Þá sagði hún öryggi á norðurslóðum nýtt forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu.

Í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, kom fram að á norðurslóðum séu miklir hagsmunir í húfi. Benti ráðherra á að allmörg ríki hafi nú þegar gert tilkall til áhrifa og aðgangs að auðlindum á Norðurpólnum. Ráðherra sagði mikilvægt að Ísland leggi í þessu sambandi áherslu á mótun nauðsynlegra leikreglna á Norðurslóðum og spyrni gegn kapphlaupi um auðlindir norðursins og einhliða aðgerðum ríkja.

Fram kom í máli Ingibjargar að nýtt tímaskeið sé hafið í öryggis- og varnarmálum Íslands. Hingað til hafi Ísland verið meira og minna þiggjandi í varnarsamstarfi vestrænna ríkja en nú séu forsendur gjörbreyttar. Sagði hún það fagnaðarefni að grannríki hafi sýnt áhuga á samstarfi við Íslendinga í öryggismálum. Minntist hún í því samhengi á rammasamningana við Noreg og Danmörku um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Sagði hún ennfremur viðlíka samstarf við Bretland, Kanada, Þýskaland og Frakkland í deiglunni.

Þá lagði Ingibjörg áherslu á aukna þátttöku Íslands í þróunarverkefnum og þróunaraðstoð. Í þessu ljósi hefur ráðherra ákveðið að Ísland gerist aðili að DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD, en með aðildinni fær Ísland beinan aðgang að reynslu og upplýsingum sem nýtast við mótun stefnu í þróunarstarfi. Ráðherra sagði ennfremur að sem auðugu ríki beri Ísland skyldu til að stefna markvisst að því að verða í hópi þeirra ríkja sem mest leggja fram til þróunarmála miðað við verg landsframleiðslu. Á þessu ári mun hlutfallið nema 0,28 prósentum, 0,31 prósentum á næsta ári og 0,35 árið 2009.

Utanríkisráðherra boðaði ennfremur aukna þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna og er markmiðið að senda fleiri friðargæsluliða til starfa í Miðausturlöndum á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×