Innlent

Vinna verður stöðvuð hjá Hunnebeck og GT verktökum

Björn Gíslason skrifar
Fulltrúar frá Vinnumálastofnun og lögreglu eru á leið að Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar til að stöðva vinnu hjá fyrirtækjunum Hunnebeck Polska og GT verktökum, sem eru undirverktakar Arnarfells við Hraunaveitu. Að sögn forstjóra Vinnumálastofnunar hefur verið brotalöm á skráningu starfsmanna fyrirtækjanna í þrjá mánuði.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að vinna fyrirtækjanna sé stöðvuð vegna þess að gögn og upplýsingar um starfsmenn þeirra hafi ekki borist þrátt fyrir leiðbeiningar frá Vinnumálastofnun.

Forsvarsmenn verkalýðsfélaga í landinu hafa farið fram á það starfsemi þeirra fyrirtækja sem ekki virða leikreglur vinnumarkaðarins verði stöðvuð en aðspurður segir Gissur að vinna sé ekki stöðvuð nú vegna þrýstings frá verkalýðsfélögum heldur sé þetta gert í samræmi við málsmeðferðarreglur Vinnumálastofnunar.

Gissur segir að vinna muni liggja niðri þar til þær upplýsingar sem skorti liggi fyrir. „Ef og þegar fyrirtækin geta lagt fram gögn og sýnt fram á að allt sé með felldu fá þau að halda áfram starfsemi," segir Gissur.

Allt að hundrað starfsmenn hjá fyrirtækjunum

Hann segir ekki á hreinu hversu margir starfsmenn séu hjá fyrirtækinu en að Vinnumálastofnun viti af að minnsta kosti 60 starfsmönnum. Grunur leiki á að þeir séu allt að hundrað.

Spurður hvort til greina komi að sækja fyrirtækin til saka fyrir að skrá ekki og veita fullnægjandi upplýsingar um starfsmenn sína segir Gissur að það sé næsta viðfangsefni. Það hafi verið ólögmætt ástand varandi um nokkurt skeið eða um þrjá mánuði.

Þær upplýsingar fengust hjá lögreglunni á Egilsstöðum að tveir lögreglumenn væru með fulltrúum Vinnueftirlitsins í för og myndu þeir stöðva vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×