Innlent

Vodkaþjófur gipinn á Hellisheiði

Lögreglan á Selfossi lagði töluvert á sig til þess að hafa hendur í hári vodkaþjófs sem dæmdur var í 30 daga fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands í dag.

Lögreglunni barst tilkynning um hádegi í gær að karlmaður hefði stolið vodkapela úr Vínbúðinni í Hveragerði. Þegar lögregla kom á staðinn hafði maðurinn fengið far með bifreið áleiðis til Reykjavíkur. Lögreglumenn eltu bíllinn og höfðu hendur í hári þjófsins á Hellisheiði en þá hafði maðurinn nánast klárað vodkapelann.

Hann var færður í fangageymslu þar sem hann svaf úr sér áfengisvímuna og í morgun var hann leiddur fyrir dómara þar sem hann játaði brot sitt. Hlaut hann sem fyrr segir 30 daga fangelsisdóm fyrir þjófnaðinn ásamt því sem honum var gert að greiða andvirði pelans, rétt um 2400 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×