Innlent

Gruna Lyf og heilsu um að misnota markaðsráðandi stöðu

Verslun Lyfja og heilsu.
Verslun Lyfja og heilsu. MYND/365

Grunur leikur á að lyfjaverslunarkeðjan Lyf og heilsa hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á Akranesi í samkeppni við Apótek Vesturlands. Samkeppniseftirlitið gerði húsleit á skrifstofum fyrirtækisins í morgun. Um eðlilega samkeppni að ræða segir í yfirlýsingu frá Lyfjum og heilsu.

Í yfirlýsingu sem Guðni B. Guðnason, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu, sendi frá sér í dag kemur fram að húsleit Samkeppniseftirlitsins á skrifstofum félagsins í morgun hafi verið gerð vegna gruns um að fyrirtækið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína í samkeppni við Apótek Vesturlands á Akranesi.

Í yfirlýsingunni segir að samkeppnisaðili Lyfja og heilsu hafi opnað apótek sitt þann 1. júlí síðastliðinn og leggi áherslu á lágt verð. Lyf og heilsa hafi mætt þeirri samkeppni með lækkun á álagningarprósentu sinnar á um tveimur hundruðustu af vörutegundum sínum á Akranesi. Að mati Lyfja og heilsu er fráleitt að kalla slíkt misnotkun á markaðsráðandi stöðu í bæjarfélaginu og telur augljóst að verðlækkunin sé einfaldlega eðlileg viðbrögð við nýrri og öflugri samkeppni.

Þá segir ennfremur í yfirlýsingunni að Lyf og heilsa muni aðstoða Samkeppniseftirlitið í hvívetna við athugun þess og leggja þannig sitt af mörkum til þess að niðurstaðan fáist í málinu sem allra fyrst.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, staðfesti í samtali við Vísi að húsleit hefði verið gerð á skrifstofu Lyfja og heilsu í Reykjavík og í apóteki fyrirtækisins á Akranesi. „Rannsóknin beinist að því hvort Lyf og heilsa hafi hindrað samkeppni með ólögmætum hætti,“ sagði Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×