Innlent

Fóru fram á frestun á 2. umræðu um fjárlög

Þingmenn Vinstri - grænna ítrekuðu á þingfundi nú fyrir hádegi að annarri umræðu um fjárlög næsta árs yrði frestað til morguns til þess að þeim gæfist ráðrúm til þess að kynna sér betur breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar.

Þingmenn hafa í morgun deilt mjög undir liðunum um störf þingsins og fundarstjórn forseta. Þar hefur verið deilt um nýtt frumvarp um fundarsköp Alþingis og hversu stutt væri liðið frá því að breytingartillögum vegna fjárlagafrumvarps hefði verið dreift og þar til ætlunin væri að ræða þær.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri - grænna, vakti athygli á því að breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp hefði verið dreift í gærkvöld eftir að flestir þingmenn hefðu verið farnir heim. Í skjóli myrkur hefði þingfundi verið haldið áfram og breytingartillögunum dreift.

Fulltrúar Vinstri - grænna hefðu gagnrýnt þetta í gærkvöld og hefðu farið fram á það að annarri umræðu um fjárlagafrumvarpið yrði frestað fram á föstudag til þess að stjórnarandstaðan gæti farið betur yfir tillögurnar. Bað hann foresta Alþingis, Sturlu Böðvarsson, um að verða við þeirri bón.

Sturla Böðvarson benti hins vegar á að frá því á mánudag hefðu ákvarðanir meirihluta fjárlaganefndar legið fyrir. Allar götur síðan hefðu þingfulltrúar í fjárlaganefnd getað farið yfir tillögurnar. Því gæti hann ekki séð að það hefði skort tíma til að undirbúa umræðuna.

Fleiri þingmenn Vinstri - grænna kvöddu sér hljóðs og tóku undir áskorun Ögmundar. Gagnrýndu þeir meðal annars að löggjafarstarfið væri óvandað og sögðu ekki skynsamlega staðið að málum. Vildu þeir meðal annars fá svör við því hvort ekki væri afbrigðilegt að breytingartillögunum hefði verið dreift 12-13 klukkustundum áður en umræða ætti að fara fram.

Alþingi hefur lengi verið veik stofnun

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, tók að hluta undir áhyggjur Vinstri - grænna benti á að önnur umræða væri í raun orðin síðasta umræða um fjárlög og því skipti miklu máli að vel væri til hennar vandað. Guðni sagði enn fremur í umræðunum að Alþingi hefði um langt skeið verið veik stofnun og hefði sætt sig við að heyra undir ríkisstjórnina. Breyta þyrfti þessu þannig að það væri forseti þingsins sem réði og ríkti á þinginu.

Rétt fyrir klukkan tólf hófst svo 2. umræða um fjárlagafrumvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×