Innlent

Umhverfisvænasta álver Alcoa

Forstjóri Alcoa segir álverið á Reyðarfirði það umhverfisvænasta af tæplega þrjátíu verksmiðjum fyrirtækisins víðs vegar um heiminn og stefnir ótrauður á byggingu álvers við Húsavík. Forsætisráðherra segir að fyrirtækið geti áfram búist við velvilja íslenskra stjórnvalda, en verksmiðja Fjarðaáls var formlega opnuð í dag.

Þótt álver Alcoa á Reyðarfirði hafi mætt nokkurri andstöðu náttúruverndarsinna, voru Austfirðingar í hátíðarskapi í dag þar sem um þúsund manns komu saman í íþróttahöllinni.

Meðal gesta voru forsætisráðherra, utanríkisráðherra, iðnaðarráðherra og samgönguráðherra ásamt þingmönnum, sveitarstjórnarmönnum og ýmsum öðrum fyrirmennum ásamt mikils fjölda íbúa á svæðinu. En alls komu yfir tvö hundruð manns austur að þessu tilefni.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagðist sannfærður um að álverið ætti eftir að reynast mikilvægt bæði fyrir heimamenn og þjóðarbúið í heild.

Alain Belda forstjóri Alcoa flaug til athafnarinnar á einkaþotu sinni en fyrirtækið rekur nú 26 álver víðs vegar um heiminn, þar sem Fjarðaál verður það fullkomnasta. Hann sagði álverið vera það umhverfisvænasta af þeim 26 álverum sem Alcoa rekur og búið fullkomnasta tækjabúnaði sem völ væri á.

Og forsætisráðherra ávarpaði hina erlendu gesti og þakkaði þeim fyrir gott samstarf. Hann sagði Alcoa mega búast við góðu samstarfi við nýmyndaða ríkisstjórn eins og hina fyrri.

Forstjóri Alcoa tók þessum orðum forsætisráðherrans fagnandi og sagði Alcoa stefna að því að byggja álver við Húsavík, ef rannósknir þar leiddu til jákvæðrar niðurstöðu.

Geir tók í svipaðan streng hvað varðar niðurstöðu rannsókna og það gerði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sömuleiðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×