Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra mun leiða viðskiptasendinefnd Útflutningsráðs til S-Afríku í lok mánaðarins. Um 15 fyrirtæki hafa staðfest þátttöku í ferðinni. Í fréttatilkynningu frá Útflutningsráði íslands kemur fram að skráningarfrestur hafi verið framlengdur til 7. febrúar. Það sé gert til að gefa fleiri fyrirtækjum tækifæri á að taka þátt í ferðinni og nýta sér þetta tækifæri til að koma vöru sinni og þjónustu á framfæri við rétta aðila í S-Afríku.
Nýtt sendiráð opnar í Pretoríu og hefur Sigríður Dúna Kristmundsdóttir verið skipuð sendiherra í S-Afríku.
Viðskiptasendinefndin leggur af stað til Jóhannesarborgar 24. febrúar en nefndin mun einnig heimsækja Pretoríu og Höfðaborg.
Fjölmargir aðilar í S-Afríku taka þátt í verkefninu m.a. stærsta lögfræðistofa landsins, Routledges, risafyrirtækið Old Mutual, verslunar- og viðskiptaráð í landinu og sérfræðingar sænska útflutningsráðsins í Jóhannesarborg.
Íslensku fyrirtækin sem þegar hafa tilkynnt þátttöku eru Icelandair, Icexpress, Landsbankinn, Landsvirkjun, Loftleidir Icelandic, Landsteinar Streng, Marel, NordiceMarketing, OpenHand og Hópferðamiðstöðin Trex.