Innlent

Bjarni selur hlutinn en stýrir REI áfram

Bjarni Ármannson og Hannes Smárason.
Bjarni Ármannson og Hannes Smárason.
Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Reykjavík Energy Invest, hyggst selja hlut sinn í fyrirtækinu til Orkuveitu Reykjavíkur, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þessi ákvörðun er tekin í fullri sátt við OR og mun Bjarni sitja áfram sem stjórnarformaður REI, til að fylgja ráðgerðum verkefnum úr húsi.

Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir aðspurð um brotthvarf Bjarna frá REI að hann muni skýra sína stöðu á hluthafafundi í dag. „Samstarfið við Bjarna hefur verið gott og í fullri sátt. Það er þó eðlilegt að þær breytingar sem hafa orðið á fyrirtækinu síðan samruni REI og Geysis Green var afturkallaður kalli á endurskoðun af hans hálfu. Fyrirtækið er ekki það sama og hann kom að á sínum tíma." Fréttablaðið hefur fengið staðfest að samkvæmt minnisblaði um hugsanlega niðurstöðu í málefnum REI og Geysis Green Energy sé gert ráð fyrir að REI verði í 100 prósenta eign Orkuveitu Reykjavíkur.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur verið tekin ákvörðun um að ekkert verði hreyft við eignarhlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja fyrr en lög Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra, sem eiga að tryggja að náttúruauðlindir séu í almannaeigu, liggja fyrir. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur umboð borgarráðs til að leiða viðræður ríkis, sveitarfélaga og meðeigenda í HS um framtíð fyrirtækis­ins, og hefjast þær í næstu viku. Auðlindalög Össurar verða þar höfð í forgrunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×