Innlent

Árni Johnsen sigurvegari prófkjörsins í Suðurkjördæmi

Árni Johnsen er sigurvegari prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Nafni hans Mathiesen leiðir listann en þremur sitjandi þingmönnum flokksins var hafnað í prófkjörinu.

Eini núverandi þingmaðurinn sem hélt sæti var Kjartan Ólafsson sem var í þriðja sæti en þingmennirnir þrír sem eru á leið af þingi eru þau Drífa Hjartardóttir sem hafnaði í fyrsta til sjötta sæti, Guðjón Hjörleifsson sem varð í sjöunda sæti og Gunnar Örlygsson sem hafnaði í tíunda sæti.

Fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, fékk 2659 atkvæði í fyrsta sæti. Ráðherra var spurður að því hvort það mætti teljast áfellisdómur yfir honum en hann sagðist ekki geta séð það. Tveir frambjóðendur byðu sig fram og annar hefði fengið færri atkvæði en hinn fleiri. Þannig væri þetta.

Aðspurður hvernig hann túlkaði tölurnar í gærkvöld sagði fjármálaráðherra að hann væri ekkert farinn að gera það. Honum sýndist þó að að það breytti ekki miklu hver fortíð manna væri og menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því þegar horft væri til framtíðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Aðspurður sagðist Árni Mathiesen ekki hissa á stuðningi flokksmanna við Árna Johnsen.

Árni Johnsen fékk alls 2302 atkvæði í annað sæti og hlaut afgerandi kosningu. Hann hélt sína kosningavöku á heimili sínu Höfðabóli. Hann var spurður að því í nótt hvernig honum litist á stöðuna og hann sagði að sér litist vel á hana. Það væri um að gera í veiðimannabyggðum að setja stefnuna á miðin og svo væri að keyra á það. Það gæti oft tekið tíma og ýmislegt gæti komið upp á í hafi.

Aðspurð í morgun gaf Drífa Hjartardóttir ekkert fyrir vangaveltur um hvort hún væri á útleið úr stjórnmálum í kjölfar prókjörsins í gærkvöldi en ítrekaði þakklæti til sinna stuðningsmanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×