Innlent

Lokatölur komnar í prófkjöri Samfylkingarinnar

Frambjóðendur Samfylkingarinnar hlýða á tölur úr prófkjörinu.
Frambjóðendur Samfylkingarinnar hlýða á tölur úr prófkjörinu. MYND/Hörður

Öll atkvæði hafa verið talin í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fór í dag. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hlaut yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í 1. sæti eða 3.326, Össur Skarphéðinsson 2.854 atkvæði í 1.-2. sæti og Jóhanna Sigurðardóttir 2.514 atkvæði í 1.-3. sæti.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins, tryggði sér fjórða sætið með 1.807 atkvæði, en hann stefndi að því sæti. Helgi Hjörvar hlaut 2.084 atkvæði í 1.-5. sæti og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir 1.936 atkvæði í 1.-6. sæti. Þá fékk Mörður Árnason 2.149 í 1.-7. sæti og Steinunn Valdís Óskarsdóttir 2.477 atkvæði í 1.-8.sæti.

Alls greiddu 4842 atkvæði í prófkjörinu. Auðir seðlar og ógildir eru 110. Gild atkvæði voru því 4759. Fjórar konur og fjórir karlar skipa efstu sæti listans en aðeins einn nýliði er í hópnum, Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Guðrún Ögmundsdóttir er hins vegar á leið út af þingi þar sem hún var ekki í hópi átta efstu í prófkjörinu.

Þær Kristrún Heimisdóttir og Valgerður Bjarnadóttir urðu í níunda og tíunda sæti í prófkjörinu og lýsti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir því yfir í kvöld að þær væru í baráttusætum flokksins, en hann hefur nú fjóra þingmenn í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×