Innlent

Borgarráð samþykkir samning um sölu á hlut borgar í Landsvirkjun

Borgarráð samþykkti á fundi sínum á þriðja tímanum í dag söluna á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun til ríkisins, en samningar þar að lútandi voru undirritaðir 1. nóvember síðastliðinn. Þetta þýðir að borgarstjórn á nú aðeins eftir að leggja blessun sína yfir samninginn.

Fundurinn í borgarráði í dag var annar fundurinn um málið en hart var deilt um það milli Samfylkingarinnar og meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hvort verðið sem greitt var fyrir hlutinn, 30,25 milljarðar króna, hefði verið ásættanlegt.

Borgarfulltrúar Samfylkinginnar telja í bókun sinni á fundinum að því fari fjarri og segja meðal annars að samningurinn byggi á verði og forsendum sem allir borgarfulltrúar hafi verið sammála um að væru fjarri lagi í janúar. Segja þeir augljóst er að samninga um sölu Landsvirkjunar þurfi að taka upp.

Meirihlutinn segir verðið hins vegar ásættanlegt og segir verðmat á Landsvirkjun sem byggt var á forsendum sem R-listinnn hafi gefið sér og hljóðaði upp á 91,2 milljarða króna hafi aldrei verið rætt í viðræðunefnd borgar og ríkis og aldrei kynnt í borgarráði.

Verðmat hins óháða ráðgjafarfyrirtækis ParX, upp á rúma 59 milljarða króna, hafi viðurkenndir aðilar rýnt án gagnrýni á meginniðurstöðum. Fullyrðingar borgarfulltrúa Samfylkinginarinnar um að borgin hafi átt að fá meira fyrir sinn hlut í Landsvirkjun séu meira og minna út í loftið og einungis byggðar á heimatilbúnum forsendum eins og segir í bókun meirihlutans á fundinum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×