Innlent

Álagið að sliga hjúkrunarfræðinga

Hópur reyndra hjúkrunarfræðinga við Landspítalann er að því kominn að hætta vegna viðvarandi álags, segir formaður félags hjúkrunarfræðinga. Formaður stjórnarnefndar spítalans segir molbúahátt ráða för þegar stjórnvöld ákveði fjárframlög til Landspítalans.

200 milljóna króna halli var á rekstri Landsspítalans fyrstu fimm mánuði ársins. Formaður stjórnarnefndar Landspítalans segir spítalann hafa verið rekinn á þanmörkum undanfarin 6 til 7 ár.

Pálmi Ragnar Pálmason, formaður stjórnarnefndar Landspítalans, segir spítalann hafa verið rekinn á þanmörkum undanfarin 6 til 7 ár sem varla geti talist eðlilegt. Hann segir grundvallarskekkju liggja í fjárveitingum til stofnunarinnar sem felist í því að upphæðin helgist ekki af þeim aðgerðum og fleiru sem þar fer fram, heldur af ákvörðun um heildarupphæð. „Svo er það bara heppni eða óheppni hvort margir verða veikir eða ekki. Þetta er náttúrlega molbúaháttur," segir Pálmi.

Heilbrigðisráðherra vill lítið segja um hvort orðið verði við beiðni stjórnarnefndarinnar. Yfir það verði farið í haust.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður félags hjúkrunarfræðinga, segir álagið sjaldan hafa verið meira á hjúkrunarfræðinga við spítalann og að sumir hverjir séu við það að sligast undan því. Einhver hópur sé hreinlega að hætta vegna þessa viðvarandi ástands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×