Innlent

Lifrarbólgutilfellum í hundum fjölgar

Lögregluhundarnir Tinni og Moli eru hreystin uppmáluð
Lögregluhundarnir Tinni og Moli eru hreystin uppmáluð MYND/Pjetur Sigurðsson

Á síðustu árum hefur tilfellum lifrarbólgu í hundum farið fjölgandi. Hundar landsins hafa ekki verið bólusettir gegn lifrarbólgu síðustu þrjú ár, vegna þess að þá var hætt að framleiða bóluefni sem notað var gegn lifrabólgu í hundum á Íslandi.

Lifrarbólga í hundum er veirusýking sem getur valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða. Frá 1996 til 2003 voru íslenskir hundar bólusettir fyrir lifrarbólgu um leið og þeir voru bólusettir fyrir smáveirusótt. Framleiðslu á því bóluefni var svo hætt og hundar voru eftir árið 2003 bólusettir fyrir smáveirusótt með sér bóluefni en ekki lifrarbólgu.

Ástæðan fyrir því að ekki er bólusett gegn lifrarbólgu er að erlend bóluefni gegn henni eru samsett bóluefni. Þau innihalda líka mótefnisvaka gegn sjúkdómum sem ekki finnast hér á landi. Slík bóluefni eru hins vegar ekki leyfileg.

Til er bóluefni sem inniheldur mótefnisvaka gegn smitandi lifrarbólgu auk mótefnisvaka gegn bakteríu og veirunni parainflúensu. Bakterían sem um ræðir finnst hér á landi en ekki er vitað um smit af parainflúensuveirunni. Landbúnaðarstofnun vinnur nú að því í samvinnu við Ólöfu Loftsdóttur, dýralækni á Dýraspítalanum í Víðidal, að taka sýni úr hundum með öndunarfærasýkingar. Ef dæmi finnast um smit af parainflúensu er hægt að nota bóluefnið og bólusetja þannig hunda landsins gegn lifrarbólgu í leiðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×