Innlent

Margt að varast í kosningum

Það er ýmislegt sem gott er að hafa í huga þegar gengið er til kosninga í dag. Þannig getur það til dæmis varðað sekt að gera sér upp sjónleysi til að fá aðstoð á kjörstað. Menn geta jafnvel lent í fangelsi fari þeir ekki rétt að öllum reglum.

Það getur oft verið flókið mál að kjósa. Ekki er nóg að gera upp hug sinn og ákveða hvað á kjósa heldur þarf að hafa hinar ýmsu reglur í huga þegar í kjörklefann er komið. Þannig getur það varðað sekt ef kjósandi sýnir af ásettu ráði hvernig hann kýs -eða hefur kosið. Það er einnig hægt að fá sekt fyrir það að njósna um hvernig kjósandi kýs og ef kjósandi gerir sér upp sjónleysi eða önnur forföll til fá aðstoð við kosningu má hann eiga von á sekt.

Sá sem torveldar öðrum að fara á kjörstað og kjósa getur átt von á höfði sér sekt eða jafnvel þyngri refsingu. Það sama á við um það að hóta kjósanda til að reyna að hafa áhrif á atkvæði hans eða að reyna að borga honum fyrir að kjósa eitthvað ákveðið. Ef einhver þiggur fé eða aðra umbun fyrir að kjósa ákveðið framboð gerist sá hinn sami sekur um refsiverða hegðun.

Allt að fjögurra ára fangelsisvist liggur við því að beita einhvern ofbeldi eða hótunum til að meina honum að greiða atkvæði eða til að neyða hann að greiða atkvæði á annan hátt en hann vill. Það sama á við um það að rugla úrslit talningar atkvæða.

Þegar merkt er við á atkvæðaseðlinum er líka ýmislegt sem gott er að hafa í huga. Flestir hafa það á hreinu að aðeins má merkja við einn lista. Fleiri hafa þó virst flaska á þeirri reglu að aðeins má strika frambjóðendur út á þeim lista sem kjósandi merkir við og kýs -og ekki má strika alla út af listanum - að minnsta kosti einn þarf að vera eftir til að eiga ekki á hættu að atkvæðið verði ógilt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×