Innlent

D-listi á móti rekstri opinberra leikskóla?

MYND/Vilhelm

Þrír frambjóðendur á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru á móti rekstri opinberra leikskóla og opinberum framlögum til menningar- og menntamála. Þessu heldur frambjóðandi Samfylkingarinnar í borginni fram.

Fulltrúar frá þremur framboðanna í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum næstkomandi laugardag voru gestir Fréttavaktarinnar á NFS í dag. Skólamálin voru þar aðalumræðuefnið og færðist nokkur hiti í leikinn þegar fulltrúi Samfylkingarinnar, Stefán Jón Hafstein, dró fram ályktun af þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna frá síðastliðnu hausti sem m.a. þrír frambjóðendur á lista sjálfstæðismanna höfðu undirritað, þeir Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Bolli Thorodssen. Í ályktuninni er meðal annars mælt gegn rekstri opinberra leikskóla og opinberum styrkjum til menningar- og menntamála.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fulltrúi D-listans, var ekki sátt við að Stefán Jón skyldi bendla ályktun ungra sjálfstæðismanna við framboðsmál Sjálfstæðisflokksins í borginni. Sagði hún að SUS væri ekki í framboði. Hanna spurði líka Stefán Jón í þessu samhengi hvort hann vildi að hún rifjaði upp hugmynd formanns ungra jafnaðarmanna í þætti NFS fyrir nokkru um að setja á laggirnar vöggustofu fyrir ungabörn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×