Innlent

Magnús Þór í ráðhúsið

Magnús Þór Gylfason Magnús Þór, sem er 32 ára Reykvíkingur, mun gegna starfi skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra til áramóta.
Magnús Þór Gylfason Magnús Þór, sem er 32 ára Reykvíkingur, mun gegna starfi skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra til áramóta. MYND/E.ÓL

Magnús Þór Gylfason hefur verið ráðinn skrifstofustjóri borgarstjóra til ársloka í afleysingum fyrir Kristínu Árnadóttur, sem fer í námsleyfi.

Magnús er með B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann skipaði 19. sæti á lista Sjálfstæðisflokks til borgarstjórnar í kosningunum í vor, en áður hefur hann verið formaður Heimdalls, framkvæmdastjóri Sambands ungra sjálfstæðismanna og framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna.

Hann sat í menningar- og ferðamálaráði og jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar á seinasta kjörtímabili en situr ekki í nefnd á vegum borgarinnar lengur.

Í starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar segir að stofnanir og fyrirtæki borgarinnar skuli auglýsa laus störf í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar og gæta jafnræðis í ráðningarferlinu.

Jón Kristinn Snæhólm, aðstoðarmaður borgarstjóra, segir að í verklagsreglum um ráðningar komi fram að séu starfsmenn ráðnir til innan við tveggja ára þurfi ekki að auglýsa starfið og því sé leyfilegt að lausráða starfsmenn til tveggja ára.

Grunnlaun sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg eru 734.685 krónur á mánuði og 94.524 krónur að auki vegna tímabundins eða ótímabundins álags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×