Innlent

Samkeppniseftirlitið ógilti samruna lyfjafyrirtækja

Lyf & heilsa Framkvæmdastjóri Lyf & heilsu segir að úrskurðurinn sé í skoðun og honum verði hugsanlega áfrýjað.
Lyf & heilsa Framkvæmdastjóri Lyf & heilsu segir að úrskurðurinn sé í skoðun og honum verði hugsanlega áfrýjað.

Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna Lyfjavers og Lyf & heilsu á þeim grundvelli að hann hindri virka samkeppni. Samruninn leiði til yfirburðastöðu á markaði fyrir skömmtun lyfja handa stofnunum og að sú sameiginlega markaðsráðandi staða sem Lyf & heilsa deilir með Lyfju á markaði fyrir smásölu lyfja styrkist.

Fyrirtækið DAC keypti lyfsölufyrirtækið Lyfjaver í mars en þessi fyrirtæki annast innflutning lyfja, heildsölu og lyfjaskömmtun fyrir einstaka sjúklinga og sjúklinga á stofnunum. Auk þess rekur Lyfjaver apótek sem eru í samkeppni við apótek í eigu Lyf & heilsu, sem er í sömu fyrirtækjasamstæðu og DAC. Samruni Lyfjavers og DAC felur því einnig í sér samruna Lyfjavers og Lyf & heilsu samkvæmt skilningi samkeppnislaga.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins segir að skaðlegra áhrifa samrunans hefði aðallega gætt á markaði fyrir smásölu lyfja og á markaði fyrir skömmtun lyfja handa sjúklingum. Samruninn hefði leitt til þess að tvær lyfsölukeðjur, Lyf & heilsa annars vegar og Lyfja hins vegar, hefðu rúmlega fjóra fimmtu hluta allrar lyfjasmásölu í landinu eða áttatíu prósent. Sú markaðsráðandi staða gerði fyrirtækjunum kleift að samhæfa hegðun sína á markaðnum, án þess að þurfa að taka tillit til keppinauta eða neytenda.

Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju, er ekki sáttur við þessi ummæli Samkeppnis­eftirlitsins og segir enga samhæfingu í gangi milli Lyfju og Lyf & heilsu. „Þó að það séu ekki eins margir aðilar á markaðnum er vissulega samkeppni í gangi. Lyfjamarkaðurinn er ekkert öðruvísi en aðrir markaðir á landinu þar sem oft eru tveir til þrír stórir aðilar ráðandi.“

Hjalti Sölvason, framkvæmdastjóri Lyf & heilsu, sagðist ekki vilja tjá sig um málið að svo stöddu þar sem það væri verið að fara yfir málið og ákveða hvort og hver næstu skref fyrirtækisins yrðu. Aðspurður um orð Samkeppniseftirlitsins varðandi hugsanlega samhæfingu hegðunar lyfjakeðjanna sagðist hann ósáttur við svona yfirlýsingar sem ættu ekki við rök að styðjast.

Samkeppniseftirlitið metur einnig að samruni DAC og Lyfjavers hefði leitt til yfirburðastöðu DAC á markaði fyrir lyfjaskömmtun og hindrað samkeppni á honum. Aðeins eitt fyrirtæki er á þessum markaði auk DAC og Lyfjavers, en það er Lyfjalausnir, sem er í eigu Lyfju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×